English |
|
Vörður - Sýning í Hafnarborg 2015 Í verkunum á sýningunni Vörður leitar Jónína Guðnadóttir aftur til bernsku sinnar og mótunarára um miðja síðustu öld. Hún finnur hugmyndum sínum form í skúlptúrum og veggverkum þar sem saman fara fjölbreyttur efniviður á borð við steinsteypu, gler og leir.
Jónína hefur um árabil verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistamanna og vakti snemma athygli fyrir einstaka nytjahluti. Hún hefur jafnframt þróað sjálfstætt myndmál í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni um leið og einstakt formskyn og hugmyndauðgi eru áberandi. Á þessari sýningu leitar hún í brunn minninganna, til atburða sem varðað hafa líf hennar.
Jónína hefur ætíð vakið athygli fyrir þá gríðarmiklu vinnu og hugsun sem hún leggur í verk sín. Þau einkennast af afar vel mótuðum og framsæknum stíl í úrvinnslu og framsetningu viðfangsefnanna.
Ólöf Sigurðardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar – Menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar
|
|